)

Pete Sampara

Það er svo sannarlega hægt að segja það að við stuðningsmenn Liverpool á Íslandi, fáum svo sannarlega góðar heimsóknir ár eftir ár. Á síðasta ári kom enski FA bikarinn í heimsókn, sem var að sjálfsögðu stórkostlegur viðburður fyrir okkur. En nú fáum við ekki síðri heimsókn.

Lesendur Rauða Hersins ættu aðeins að kannast við kappann sem um ræðir. Stórt einkaviðtal var við kappann í þarsíðasta tölublaði og þeir sem ekki hafa séð það, ættu að hafa margoft séð kappann í sjónvarpinu, þakinn nælum og veifandi risafánum. Pete Sampara er Kopite eins og þeir gerast bestir, enda sá allra þekktasti í Liverpoolborg. Oftar en ekki hefur hann hinn magnaða fjöldasöng sem við heyrum svo oft glymja úr Kop-stúkunni á Anfield. Það vita einnig flestir Íslendingar sem hafa farið á Anfield, hver hann er. Það þarf ekki nema rétt að líta inn á "The Park" fyrir leik, þá fer kappinn ekki framhjá neinum.

Þessi heimsókn hans til okkar hefur vakið mikla athygli í Liverpool borg, og má skjóta því að að útvarpsrás í borginni ætlar að fjalla sérstaklega um ferð hans hingað og klúbbinn okkar hér á skerinu í norðri.

Úr viðtali okkar við Pete í Rauða hernum: "Á leikdegi þá er yfirleitt maginn á mér í algjörum hnút þannig að ég kem engum mat niður. Ég get ef till vil fengið mér einn kaffibolla og stundum morgunkorn en ég er orðinn svo stressaður að það stendur í mér þegar ég ætla að kyngja. Yfirleitt keyrir konan mín mig á völlinn, og ég verð að fara sérstaka leið, því að það vill svo til að Goodison Park er á leið minni á Anfield og ég verð að fara krókaleið til þess að ég þurfi ekki að líta þetta viðurstyggilega mannvirki augum."

Pete á eftir að vera áberandi þessa daga sem hann dvelur hérna.

Laugardagur:

Pete mun vera í Jóa útherja í Ármúla 36 frá klukkan 12:30-13:30 og þarna gefst Púllurum gott tækifæri á að taka í spaðann á kappanum eða láta taka mynd af sér með honum í sérhönnuðu setti sem hefur verið sett upp í búðinni. Að þessu tilefni býður Jói útherji 50% afslátt af þeim pólóbolum, peysum og flíspeysum sem þeir selja á vegum Liverpoolklúbbsins og er kyrfilega merkt okkar klúbb. Að þessu loknu heldur hann til barnaárshátíðar okkar í Seljaskóla og mun taka þar virkan þátt í því fjöri sem mun skapast þar.

Um kvöldið hefst fagnaðurinn fyrir eldri meðlimi klúbbsins klukkan 19:00 í Ölveri og hann mun að sjálfsögðu sitja þar í heiðurssæti og skemmta sér með okkur frameftir nóttu.

Sunnudagur:

Það verður líklega skrítin tilfinning fyrir marga að hafa Pete í salnum á Ölveri á hádegi þegar Leeds - Liverpool verður leikinn í stað þess að sjá hann í sjónvarpinu. Það væri fróðlegt að taka púlsinn á honum þegar Robbie Fowler, fyrrum goð hans í Liverpoolliðinu, hyggst gera okkar mönnum grikk.

Tökum vel á móti Pete Sampara og sýnum honum hvers Púllarar á Íslandi eru megnugir.

TIL BAKA