)

Markus Babbel

Síðastliðin vika var heldur betur viðburðarík hjá Markus Babbel. Hann skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool og opnaði markareikning sinn í úrvalsdeildinni örfáum dögum síðar. Markus er í skýjunum eftir vikuna: "Þetta var frábær vika. Við skoruðum 11 mörk í 2 leikjum og ég skoraði fyrsta mark mitt á ferlinum fyrir Liverpool gegn Stoke og fyrsta mark mitt í úrvalsdeildinni og það á Anfield. Það var mjög sérstakt að skora markið á Anfield. Steven Gerrard átti frábæra sendingu og þetta var auðvelt færi að skora úr. Hávaðinn frá aðdáendum okkar var ótrúlegur þegar ég skoraði. Ég mun aldrei gleyma þessu augnabliki. Ég vona að ég eigi eftir að skora nokkur í viðbót áður en tímabilið er úti."

Frammistaða Babbel hefur verið sveiflukennd á þessu tímabili en hann virtist vera að ná sér á strik þegar hann smellti sér í miðvarðarstöðuna. Markus telur sjálfur að sterkasta staða hans sé í miðverðinum en hann hefur ekki leikið í þeirri stöðu að ráði sl. 2 ár. Stephane Henchoz hefur, ef maður tekur ekki dýpra í árinni, átt frekar brokkgegnt tímabil en svo virðist sem að Houllier sé ákveðinn í að láta hann og Hyypia mynda miðvarðarparið eins og á síðasta tímabili þegar gekk mun betur í varnarleiknum. Flestir leikir Babbel hafa verið í hægri bakverðinum og er gengi hans þar ekkert til þess að hrópa húrra fyrir en má telja víst að þegar jafnvægi kemst á vörnina að hann komi betur út í þeirri stöðu. Við vonum að þessi mörk verði Babbel hvatning til enn frekari dáða en gleymi nú ekki að láta einnig til sín taka þegar að varnarleiknum kemur.

Þess má geta Markus rekur öfluga heimasíðu sem er á slóðinni http://www.mbabbel.com og er nú kominn á tengingasíðuna okkar.

TIL BAKA