)

Emiliano Insua

Argentínski strákurinn Emiliano Insua hefur haldið áfram á þessu keppnistímabili þaðan sem frá var horfið á því síðasta. Þá náði hann að spila þó nokkuð marga leiki í stöðu vinstri bakvarðar og hann hefur haldið þeirri stöðu í fyrstu leikjunum í sumar. 

Emiliano er vissulega ekki alinn upp hjá Liverpool en hann hefur sýnt að ungliðar geta brotið sér leið inn í aðallið Liverpool. Segja má að hann hafi farið leið sem gjarnan var farin í gamla daga. Sú leið var svona. Ungur leikmaður var keyptur til Liverpool. Hann lék svo hæfilega lengi með varaliðinu áður en hann fékk tækifæri til að festa sig í sessi í aðalliðinu. Margir af bestu leikmönnum Liverpool fóru þessa leið og nú hefur Emiliano fetað hana.

Staða vinstri bakvarðar hefur verið nokkuð vandamál síðustu árin hjá Liverpool. John Arne Riise hélt stöðunni lengi en svo fjaraði undan honum. Fabio Aurelio hefur átt í miklum meiðslavandræðum eftir að hann kom til Liverpool og Andrea Dossena hefur langt frá því staðið undir væntingum. Emiliano kom inn í liðið á síðasta keppnistímabili og hefur nú leikið á þriðja tug leikja. Hann er eldfljótur, sókndjarfur og hefur fært hraða í sóknarleik Liverpool á vinstri vængnum. Hann er líka góður varnarmaður þannig að segja má að hann búi yfir öllum þeim kostum sem bakvörður þarf að hafa.
 
Það á eftir að koma í ljós hvort Emiliano, sem kom til Liverpool frá Boca Juniors í janúar 2007, nær að festa sig almennilega í sessi í stöðu vinstri bakvarðar en ferill hans hingað til hjá Liverpool lofar góðu. Sumir sparkfræðingar vilja meira segja meina að hann eigi erindi í argentínska landsliðið. Emiliano segir alltof snemmt að hugsa svo langt. "Fyrst verð ég nú að hugsa um að spila vel með Liverpool. Ég einbeiti mér bara að því núna að spila reglulega í liði Liverpool. Lengra get ég ekki leyft mér að hugsa fram í tímann."

Sf. Gutt.
TIL BAKA