)

Jose Reina

Liverpool mun leika í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á þessari leiktíð. Liðið komst naumlega áfram. Ef það ætti að taka einn leikmann og þakka honum öðrum fremur fyrir það þá væri það Jose Reina. Reyndar skoraði Dirk Kuyt markið sem kom Liverpool áfram í riðlakeppnina en Jose Reina bjargaði því sem bjargað varð í fyrri leiknum gegn Standard Liege í Belgíu. Í þeim leik varði hann meðal annars vítaspyrnu. Hann varði svo tvívegis vel í seinni leiknum áður en Dirk gerði út um leikinn.

Þessi framganga Jose Reina kemur stuðningsmönnum Liverpool ekkert á óvart. Jose hefur sýnt það og sannað frá því hann kom til Liverpool að hann er einn besti markvörður í Evrópu. Það mætti kannski segja að hér væri svolítið mikið sagt því hann er ekki einu sinni aðalmarkmaður spænska landsliðsins. En staðreyndin er sú að Jose væri líklega aðalmarkmaður í flestum öðrum landsliðum en því spænska. Jose var valinn í spænska landsliðið fyrir Evrópukeppni landsliða nú í sumar. Þar spilaði hann einn leik og það dugði til að fá gullpening.  

Það segir líka sína sögu um styrkleika Pepe að hann vann "Gullhanskann" í þriðja sinn í röð á síðustu leiktíð. Þessa viðurkenningu hlýtur sá markmaður í Úrvalsdeildinni sem oftast heldur marki sínu hreinu. Að fá viðurkenninguna þrjú ár í röð er einstakt afrek. Vissulega er vörn Liverpool gríðarlega sterk og Jose þarf ekki alltaf að gera mikið í markinu en hann hefur frábærar staðsetningar og býr yfir mikilli einbeitni. Þessir kostir eru nauðsynlegir fyrir markmenn sem hafa kannski ekki alltaf mikið að gera. Þeir sem spila fyrir aftan Jose kunna líka vel að meta hann. Einn af þeim er Jamie Carragher. "Ég hef alltaf sagt að hann sé frábær markmaður. Ég er búinn að vera lengi hérna og hann er besti markmaður sem ég hef spilað með. Hann hefur nú þegar sett nokkur félagsmet og það segir sína sögu um hversu góður hann er. Mér finnst hann einn af þremur bestu markmönnum í heimi. Ég tel að Petr Cech, Gianlugi Buffon og Pepe séu þeir bestu og það má raða þeim upp í hvað röð sem er því þeir eru álíka góðir."

Mörgum stuðningsmönnum Liverpool þótti nokkuð hart að Jerzy Dudek skyldi vikið frá, eftir hetjudáðir hans í Istanbúl, þegar Jose var keyptur. En núna held ég að stuðningsmenn Liverpool myndu ekki vilja skipta á Jose og mörgum öðrum markmönnum og kannski engum!

Sf.Gutt.

 

 

TIL BAKA