)

Steven Gerrard

Annað árið í röð hafa lesendur Liverpool.is valið Steven Gerrard sem Mann ársins hjá Liverpool. Sú niðurstaða þurfti ekki að koma á óvart því fyrirliði Liverpool stóð sig með miklum sóma á nýliðnu ári. Steven hélt áfram að fara fyrir sínum mönnum og hann sýndi mikinn stöðugleika í leik sínum með Liverpool. Að auki stóð hann fyrir sínu með enska landsliðinu þótt ekki ynni hann nein stórafrek á þeim vettvangi frekar en liðsfélagar hans.

Árið 2007 var um margt eftirminnilegt fyrir Steven. Hann leiddi Liverpool til leiks í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í annað sinn á þremur árum. Hann náði reyndar ekki að hampa bikarnum eins og Istanbúl en það eitt að komast til Aþenu var afrek út af fyrir sig. Vonbrigði Steven voru reyndar mikil í Aþenu enda hafði hann sett markið hátt fyrir leikinn.

Steven Gerrard kom sér rækilega í annála Liverpool undir lok ársins þegar hann skoraði fyrsta mark Liverpool gegn Marseille í Frakklandi. Markið var mikilvægt því það lagði grunn að 4:0 sigri Liverpool sem kom liðinu áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar. En um leið og Steven skilaði boltanum í markið var hann orðinn markahæsti leikmaður í Evrópusögu Liverpool. Markið var 23. Evrópumark hans fyrir Liverpool og það er sannarlega magnaður árangur hjá miðjumanni. Steven gerði sér líka lítið fyrir í nóvember og desember og skoraði í sjö leikjum í röð fyrir Liverpool. Líklega er það líka félagsmet hjá miðjumanni. Að minnsta kosti er afrekið fágætt! 

Steven var valinn í nokkur úrvalslið á árinu. Hann var valinn í úrvalslið síðustu leiktíðar í kjöri Samtaka atvinnumanna á Englandi og eins var hann valinn í úrvalslið BBC sem var valið eftir að síðustu sparktíð lauk. Steven var líka valinn í úrvalslið FIFPro og hann fékk líka sæti í liði sem var valið á vefsíðu Knattspyrnusambands Evrópu.

Af öðrum merkisverðum atburðum á árinu má nefna að Steven og Alex Curran, þáverandi heitkona hans, fóru á fund Elísabetar Bretadrottningar til að taka við MBE orðunni. Orðuna fékk hann reyndar í lok árs 2006. En líklega var eftirminnilegasti viðburður ársins fyrir Steven sjálfan þegar hann játaðist Alex frammi fyrir Guði og mönnum á liðnu sumri.

Lesendur Liverpool.is hafa sem sagt valið Steven Gerrard Mann ársins 2007! 

Þetta urðu niðurstöður valsins.

Steven Gerrard 37,12 %

Fernando Torres 30,98 %

Jamie Carragher 11,23 %

Jose Reina 6,78 %

Rafael Benítez 6,53 %

Einhver annar en þeir sem hér eru fyrrnefndir 3,34 %

George Gillett / Tom Hicks 2,13 %

Peter Crouch 1,89 %

Heildarfjöldi greiddra atkvæða í kjörinu var: 2066.

Til gamans þá er hér niðurstaðan úr kjöri á Manni árins 2006.

Steven Gerrard 39,28 %

Peter Crouch 33,63 %

Jamie Carragher 9,55 %

Einhver annar en þeir sem hér eru fyrrnefndir 5,65 %

Rafael Benítez 5,29 %

Jose Reina 4,14 %

David Moores 1,44 %

Rick Parry 1,02 %

Rafael Benítez var valinn Maður ársins árið 2005.

Sf. Gutt.

TIL BAKA