)

Steve Finnan

Líklega er enginn af fastamönnum Liverpool eins lítið í sviðsljósinu og Steve Finnan. Samt gegnir hann lykilhlutverki í vörn liðsins og í raun eru ekki margir betri hægri bakverðir á markaðnum. Gerard Houllier keypti hann frá Fulham sumarið 2003. Fyrsta leiktíð hans hjá Liverpool reyndist sú síðasta sem Frakkinn var við völd hjá Liverpool. Steve gekk reyndar ekkert sérstaklega vel á þessari fyrstu leiktíð sinni.

Rafael Benítaz tók við á þjóðhátíðardaginn 2004 og fór fljótlega að huga að því að móta lið eftir sínu höfði. Í upphafi leiktíðar virtist sem Steve Finnan væri ekki inni í áætlunum Spánverjans og hann var orðaður við sölu frá félaginu. Spánverjinn Josemi var keyptur til að spila stöðu hægri bakvarðar. Í upphafi leiktíðarinnar fékk Steve þó sæti á hægri kanti eftir að það vantaði í þá stöðu. Allt frá þeim tíma hefur Steven verið fastur maður í liði Liverpool og Rafael hefur ekki dottið í hug að selja hann. Hann var fljótlega færður aftar á völlinn í stöðu hægri bakvarðar. Það kom í ljós að Írinn var betri bakvörður en Josemi og hingað til hefur engum tekist að hrekja hann úr stöðunni sinni.

Eftir að hafa orðið Evrópumeistari vorið 2005 átti Steve sína bestu leiktíð. Það sem olli því aðallega var að sjálfstraust hans jókst til muna og hann fór að taka meiri þátt í sóknarleiknum. Hann lagði upp nokkur mörk á leiktíðinni og margir töldu að hann væri orðinn besti hægri bakvörður í Úrvalsdeildinni. Mörgum þótti hann eiga skilið að vera valinn í lið leiktíðarinnar sem jafnan er valið en svo fór þó ekki.

Jan Kromkamp kom og fór og Steven hélt sinni stöðu sem fyrr. Írinn hefur leikið mjög vel það sem af er þessarar leiktíðar. Honum hefur enn aukist sjálfstraust í sóknarleiknum og hann hefur átt þátt í nokkrum mörkum. Rafael Benítaz er alltaf að velta því fyrir sér hvernig hann getur bætt liðið sitt og í upphafi leiktíðar var Ástralinn Lucas Neill í sigtinu. Ekkert varð að kaupum á honum og því hefur Steve svo til spilað hvern einasta leik á þessari leiktíð. Það segir sína sögu að þegar Rafael var að breyta liði sínu frá einum leik til annars að þá átti Steve sína stöðu vísa. Vissulega hefur Liverpool engan reyndan leikmann annan til að spila þessa stöðu. En það eru einfaldlega ekki margir betri hægri bakverðir á markaðnum.

Ronnie Whelan, fyrrum leikmaður Liverpool, hefur mikið álit á landa sínum og sagði þetta um hann fyrr á árinu. "Hann er mjög góður leikmaður og hefur verið frábær síðustu tvö tímabilin. Hann er núna lang besti hægri bakvörður Írlands og hann er einnig sá besti í Úrvalsdeildinni þessa stundina. Hann lætur ekki mikið yfir sér og er aldrei notaður í fyrirsögnum blaðanna en hann skilar frábæru verki hægra megin í vörninni. Þegar hann var keyptur til Liverpool þá komst maður ekki hjá því að spyrja sig að því hvort hann væri virkilega nógu góður. En hann hefur bara orðið betri og betri með tímanum." Steve er hins vegar hógvæðin uppmáluð. "Það er bara mikilvægt fyrir mig að ég spili eins vel og ég get í hverjum leik þannig að framkvæmdastjórinn eigi erfitt með að sitja mig út úr liðinu."

Sf. Gutt.

 

TIL BAKA