)

Dirk Kuyt

Dirk Kuyt hefur byrjað vel hjá Liverpool. Hann hefur verið fljótur að vinna sig í álit hjá stuðningsmönnum Liverpool með því skora mörk en líka með því að vera mjög duglegur. Hollendingurinn kom til Liverpool með gott orðspor og vel það. Hann var einfaldlega í tölu helgra manna hjá Feyenoord þar sem hann bara raðaði ekki inn mörkum heldur gat sér einstaklega gott orð með því að leggja allt í sölurnar fyrir liðið sitt. Stuðningsmenn Liverpool hafa líka ekki verið lengi að átta sig á kostum Dirk Kuyt og nú þegar er búið að koma fyrir borða á The Kop sem hyllir "Hollenska meistarann"!

Strax í fyrsta leik sínum gegn West Ham United þegar Dirk kom inn sem varamaður kom vel í ljós að þessi maður var ekki kominn til Liverpool til að taka það rólega. Eftir nokkrar sekúndur var hann búinn að reyna markskot. Það vakti líka athygli að hann fór strax að láta að sér kveða með því að hvetja félaga sína og skipa þeim fyrir á vellinum. Þetta kunnu stuðningsmenn Liverpool vel að meta.

Annað í fari Dirk hefur fallið í mjög góðan jarðveg hjá stuðningsmönnum Liverpool. Það er sá vani hans að þakka áhorfendum vel fyrir hvern einasta leik. Þetta gerir Dirk með því að dvelja um stund á vellinum eftir að leik er lokið og klappa fyrir áhorfendum. Þetta segist hann alltaf hafa gert á ferli sínum. "Ég fer alltaf til stuðningsmannanna eftir leiki. Að minnsta kosti þegar ég hef skorað! Mér finnst að með því að gera það sé ég að sýna stuðningsmönnunum virðingu fyrir þann ótrúlega stuðning sem þeir hafa veitt okkur. Ég var vanur að gera þetta bæði hjá Utrecht og Feyenoord því ég vildi þakka þeim fyrir stuðninginn. Ég geri þetta eftir alla leiki sem ég skora í. Það er dásamlegt að leika fyrir framan stuðningsmenn á borð við þessa. Þeir virðast nú þegar bera virðingu fyrir mér og ég vildi, eftir leikinn, sýna þeim að ég bæri líka virðingu fyrir þeim. Allir hafa reynst mér mjög góðir frá því ég kom hingað og reynt að hjálpa mér að koma mér fyrir. Það er mikilvægt að sýna stuðningsmönnunum virðingu til baka."

Dirk er gríðarlega markheppinn leikmaður. Það sýndi hann vel á ferli sínum í Hollandi þar sem hann skoraði 149 mörk í 306 leikjum með Utrecht og Feyenoord. En það er ekki bara markheppni hans sem gerir hann að eins góðum sóknarmanni og raun ber vitni. Dirk er líka með eindæmum duglegur leikmaður. Hann er látlaust á hlaupum á eftir varnarmönnum andstæðinganna og reynir þannig að koma þeim úr jafnvægi. Ian Rush hældi Dirk fyrir þetta á dögunum. "Það er mikill fengur fyrir framkvæmdastjóra að hafa leikmann í sínum röðum sem er tilbúinn að leggja hart að sér úti um allan völl. Ég tel að ég hafi haft ríkan skilning á því hvernig sóknarmenn geta hafið vörnina frammi á vellinum og Dirk virðist hafa svipaðan hugsunarhátt."

Rafael Benítez var lengi búinn að hafa hug á að fá Dirk til Liverpool. Hann sparar heldur ekki stóru orðin þegar hann talar um Hollendinginn. ,,Ég hef fylgst lengi með Dirk og hann er mjög stöðugur leikmaður og er nánast hinn fullkomni framherji. Hann leggur hart að sér, veldur varnarmönnum miklum vandræðum og kemur öðrum leikmönnum inn í leikinn." Það nokkuð mikið að segja að einhver sé svo til fullkominn framherji en Dirk hefur sýnt að það er mikið í hann spunnið. Frá því Michael Owen yfirgaf Liverpool hefur oft verið sagt að það hafi vantað verulega mikinn markaskorara í liðið. Rafael fékk til Dirk til Liverpool til að skora mörk og það mörg. Hann er maðurinn sem á að skila tuttugu mökum á leikíð og helst fleiri en það.

Dirk hefur, þegar þetta er skrifað, skorað fimm mörk fyrir Liverpool. Hann segir að allt hafi gengið í sögu eftir að hann kom til Liverpool og sér og sínum hafi verið tekið sérlega vel. "Fólkið sem starfar hjá félaginu hefur komið einstaklega vel fram við okkur, sumir hafa verið að hjálpa okkur við að finna hús og ýmislegt annað. Ég er því búinn að koma mér mjög vel fyrir. Konan mín og dóttir eru hérna með mér og við erum í íbúð sem félagið fann handa mér. Við erum nýbúin að finna hús hérna í sunnanverðri Liverpool og við ættum að flytja þar inn eftir eina til tvær vikur." Eftir góða byrjun hjá Liverpool ætti allt að vera til staðar til þess að Dirk geti skorað fjölda marka fyrir Liverpool á þessari leiktíð og öðrum ókomnum.

Sf. Gutt.


TIL BAKA