)

Rafael Benítez

Lesendur Liverpool.is hafa valið Rafael Benítez Mann ársins 2005! Það val þarf ekki að koma neinum á óvart. Rafael leiddi Liverpool í fjóra úrslitaleiki á árinu sem nú er nýliðið. Tveir titlar unnust og aðrir tveir gengu Rafael og lærisveinum hans naumlega úr greipum.

Þetta urðu niðurstöður valsins.

Rafael Benítez
36%

Jamie Carragher
28%

Steven Gerrard
25%

Jerzy Dudek
6%

Einhver annar en þeir sem voru tilnefndir 
1%

Sami Hyypia
1%

David Moores
1%

Rick Parry
1%

Heildarfjöldi greiddra atkvæða í kjörinu var: 5870.

Þó ekki sé horft til þess að Rafael Benítez leiddi Liverpool til sigurs í Meistaradeildinni og Stórbikar Evrópu þá hefur hann áunnið sér eitt sem ekki er auðvelt. Hann hefur áunnið sér takmarkalitla virðingu stuðningsmanna Liverpool. Sú virðing nær reyndar út fyrir raðir stuðningsmanna Liverpool. Auðvitað hangir sú virðing saman við það að Rafael stýrði Liverpool til sigurs gegn AC Milan. Ekki bara það að Rafael næði að leggja á ráðin með sigur í úrslitaleiknum í Istanbúl. Hann náði að snúa töpuðum leik í sigurhátíð í einum ef ekki magnaðasta úrslitaleik í fimmtíu ára sögu Evrópubikarsins. Allt í kringum þennan ótrúlega leik færir Rafael auðvitað ómælda virðingu. Hann sneri líka töpuðum leik í sigur í leiknum um Stórbikarinn. Með lítilli heppni hefði Liverpool getað lagt Chelsea að velli í úrslitaleiknum um Deildarbikarinn og það var aðeins ótrúlegt ólán sem kom í veg fyrir að Liverpool yrði krýnt Heimsmeistari félagsliða nú í lok síðasta árs. 

Rafael veit að lánið er fallvalt. Forveri hans Gerard Houllier átti takmarkalausa virðingu stuðningsmanna Liverpool vísa í lok árs 2001. Afrakstur árins, fimm verðlaunagripir, voru þá hýstir í bikarageymslu Liverpool. En lánið yfirgaf Frakkann. Það verður ekki séð nú hvernig Rafael vegnar í framtíðinni. Mest ræst það af því hvort hann nær að gera Liverpool að enskum meisturum. Um það takmark snýst vinna hans hjá Liverpool Football Club. Til þessa var hann ráðinn til félagsins og hann veit það best sjálfur. Víst er að Rafael verður vakinn og sofinn yfir verkefni sínu. Konan hans sefur víst oft ein um nætur á meðan Rafael leggur á ráðin. Eiginkona Gerard Houllier mátti víst þola það sama! En Rafael bætir konu sinni þetta upp með góðum gjöfum þegar Liverpool vinnur titla. Þá gerir hann sér jafnan ferð til skartgripasala og kaupir úr handa sinni heittelskuðu. Eiginkona hans mun því hafa fegnið tvö glæsileg úr að gjöf á árinu 2005 og þurfti ekki jólagjafir til. Við vonum að úrum frúar Rafael Benítez fjölgi jafnt og þétt á komandi árum!   


TIL BAKA