)

Fernando Morientes

Moro er ekki enn einn óþekktur leikmaður sem fer til Liverpool með loforðinu um að hann verði næsta stórstjarna. Moro er stórstjarna. Fyrir þá sem ekki vita þá er Moro gælunafn Fernando Morientes Sanchez.

Morientes fæddist í Cilleros í Cacereshéraði á Spáni árið 1976, nánar tiltekið þann 5 apríl. Hann byrjaði ferilinn hjá nokkrum litlum liðum, Diana, Bar Cuatro, Refugio Dorado, Citroen og Sonseca, allt þar til hann endaði hjá Albacete árið 1993. Og það var einmitt hjá Albacete þar sem hjólin byrjuðu að snúast fyrir Morientes. Hann spilaði tvö heil tímabil fyrir þá og skoraði alls 5 mörk í 22 leikjum, þá aðeins 18 ára gamall. Frammistaða Morientes vakti athygli Real Zaragoza sem á endanum ákvað að fjárfesta í þessum unga leikmanni, fjárfesting sem þeir áttu ekki eftir að sjá eftir. Hjá Zaragoza blómstraði Morientes, skoraði 13 mörk í aðeins 29 leikjum á sínu fyrsta tímabili og skildi menn gapandi yfir snilld þessa unga markaskorara. Árið eftir bætti hann um betur og skoraði 15 mörk í 37 leikjum. Morientes var nú farinn að vekja athygli sterkustu liða í Evrópu, en það var aldrei spurning þegar Real Madrid fór að spyrjast fyrir um hann.

Stjarna er fædd

Morientes var orðinn leikmaður Real Madrid leiktíðina 1997/98, þar sem hann átti eftir að vinna spænska meistaratitilinn tvisvar og sjálfa Meistaradeildina þrisvar. Hann spilaði alls 179 leiki fyrir Real Madrid í spænsku deildinni og skoraði 72 mörk. Flest mörk skoraði hann leiktíðina 98/99, en þá tókst honum að hrella mótherja Real Madrid með 19 mörkum. Meistaradeildin fékk líka að kynnast markheppni Morientes, en þar skoraði hann alls 19 mörk þann tíma sem hann var hjá Los Merengues. Frábær frammistaða Morientes varð til þess að hann var kallaður til liðs við landsliðið fyrir leik Spánverja og Svía árið 1998. Byrjunin með landsliðinu var draumi líkust, tvö mörk á fyrstu fimm mínútunum fyrir Morientes, og 4-0 sigur. Þetta var þó ekki í fyrsta skipti sem hann skoraði í sínum fyrsta leik, en hann hefur skorað í sínum fyrsta leik fyrir Albacete, Zaragoza, Real Madrid, u18 lið Spánar, U20 ára lið Spánar og eins og áður kom fram spænska landsliðinu sjálfu. Ótrúleg tölfræði hjá manni sem átti eftir að festa sig í sessi í spænska landsliðinu komandi ár.

Hjá Real Madrid myndaði hann sérstakt vinasamband við Raúl, sem varð til þess að þeir náðu mjög vel saman á velli. Þeir félagar léku fyrst saman í framlínunni í unglingalandsliðum Spánar. Sagt er að eitt sinn þegar “Moro” var í banni Evrópska superbikarnum hafi Raúl verið í treyju með nafni Morientes aftan á til að sýna ef hann skoraði. Því miður tókst honum ekki að skora þann daginn. Hann á að hafa haldið að Morientes væri á förum frá liðinu því hann var ekki í byrjunarliðinu, og vilja tileinka markið honum. Ekki aðeins eru þeir tveir góðir vinir, heldur eru fjölskyldur þeirra beggja mjög nánar og fara þeir saman í frí. Ivan Helguera heldur því meira að segja fram að þeir séu með mjög svipuð tattú báðir tveir fyrir ofan hægri hælinn.

Brátt fór þó að halla undan fæti hjá Morientes. Við komu Ronaldo til Real Madrid missti Morientes byrjunarliðssæti sitt leiktíðina 02/03, byrjaði aðeins 2 leiki, kom inná 16 sinnum og skoraði 5 mörk. Hann var ekki lengur lykilmaður í spænska landsliðinu, og ljóst var að hann yrði að gera eitthvað til að bjarga ferlinum. Monaco spurðist fyrir um Morientes, og fengu hann að lokum að láni út leiktíðina. Seinna átti Real Madrid eftir að sjá eftir því að hafa lánað hann, eða að minnsta kosti að hafa ekki sett klásúlu í samninginn að hann mætti ekki spila gegn þeim. Morientes varð lykilmaður í liði Monaco, skoraði 10 mörk í frönsku deildinni og 9 mörk í Meistaradeildinni, m.a. sigurmörk gegn ekki minni liðum en Chelsea og Real Madrid. Monaco var að lokum stöðvað í úrslitaleiknum gegn Porto. Heima fyrir stóð Monaco sig einnig vel, leiddi deildina mest allt tímabilið, en missti dampinn í lokinn og endaði í 3. sæti. Morientes var valinn besti framherji Evrópu fyrir frammistöðu sína þetta árið, þá sérstaklega fyrir frábæra frammistöðu í Meistaradeildinni.

Hér er síðan listi yfir alla þá helstu titla sem Morientes hefur unnið á sínum ferli.

2 Spánarmeistaratitlar (2000-01, 2002-03) 2 spænskir bikartitlar (1997, 2001) 3 Meistaradeildartitlar (1997-98, 1999-00, 2001-02)

Fimmti spanjólinn hjá Liverpool

Mikil þörf er á markaskorara hjá Liverpool, þar sem aðeins Baros af núverandi sóknarmönnum hefur sannað sig á hæsta stigi. Pongolle og Mellor eru ennþá ungir og eru ekki nógu góðir núna til að bera hitann og þungann af sóknarleik Liverpool. Morientes er hins vegar kjörinn í það hlutverk. Hann er einn besti skallamaðurinn í boltanum, er með tvo fætur og kann að nota þá báða. Hann hefur margoft sannað si,, bæði í Meistaradeildinni og í einni af sterkustu deild veraldar, þeirri spænsku. Hann ætti ekki að eiga í erfiðleikum að aðlagast á Englandi, enda leikstíll hans oft talinn vera mjög líkur þeim enska.

Höfundur: Poolari (af spjallborði liverpool.is)
TIL BAKA