)

Milan Baros

Milan Baros er búinn að leika frábærlega fyrir Liverpool á þessari leiktíð. Þegar leiktíðin hófst hélt hann einfaldlega áfram þaðan sem frá var horfið á Evrópumóti landsliða á liðnu sumri. Þar endaði hann sem markakóngur mótsins eftir að hafa skorað fimm mörk. Fyrstur leikmanna Liverpool náði hann þar með gullskó á stórmóti. Milan var vissulega á báðum áttum í sumar hvort hann ætti að vera áfram hjá Liverpool. Mörg stólið Evrópu vildu fyrir alla muni fá hann í sínar raðir eftir Evrópumótið. En Tékkinn ákvað að slá til og vera um kyrrt. Líklega réði það mestu um ákvörðun hans að nýr framkvæmdastjóri var kominn til félagsins.

Milan er baráttumaður. Hann ætlaði að sanna sig hjá Liverpool og byrjaði því leiktíðina af fullum krafti. Hann hljóp út um allt og barðist um boltann hvort sem hann átti litla eða mikla möguleika á að ná honum. Það gekk ekki allt upp hjá honum en aldrei lét hann deigann síga. Þetta er einfaldlega leikstíll hans. Mörkin komu og Milan náði að festa sig í byrjunarliðinu. Fótbrot Djibril Cisse þýddi að Milan var nú skyndilega orðinn aðalsóknarmaður Liverpool. Hann lék nú betur með hverjum leik og sjálfstraustið fór stig vaxandi.

Hápunktur leiktíðarinnar, hingað til, kom svo gegn Crystal Palace á laugardaginn. Milan átti þá algeran stjörnuleik og líklega þann besta á ferli sínum með Liverpool. Hann sýndi ótrúlega yfirferð og baráttu. Barátta hans skilaði honum fyrstu þrennu sinni fyrir Liverpool. Hann fiskaði tvær vítaspyrnur sem hann skoraði úr. Milan hafði aldrei tekið vítaspyrnu áður fyrir aðallið Liverpool. En sjálftraust hans var slíkt að hann tók báðar vítaspyrnurnar. Sú seinni kom á lokamínútu leiksins og færði Milan þrennu og Liverpool 3:2 sigur! Milan gerði lítið úr sínum hlut eftir leikinn. "Þessi sigur var ekki einungis mér að þakka. Við lékum góðan sóknarleik sem lið og mér tókst að skora þrjú mörk. Þess vegna verður nafn mitt í fyrirsögnum blaðanna en ég met vinnu félaga minna í liðinu mikils. Án þeirra hefði þrennan ekki verið möguleg."

Rafael Benítes sagði eftir leikinn að Milan ætti eftir að vera enn betri. Í sama streng tók fyrrum lærifaðir hans Ian Rush. "Ég hef unnið með Milan. Hann er mjög viljugur strákur sem er alltaf tilbúinn að hlusta á ráðleggingar. Hann getur bætt sig og hann á eftir að gera það. Það kemur fyrir að maður veit að ákveðnir leikmenn eru búnir að ná því sem þeir geta. En það á ekki við Milan. Hann er nú þegar mjög góður leikmaður. En hann getur orðið enn betri og það eru góðar fréttir fyrir Liverpool."

Milan, sem er aðeins 23 ára, hefur nú skorað 24 mörk fyrir Liverpool í 79 leikjum. En markaskorun hans með tékkneska landsliðinu er ótrúlega mögnuð. Hann hefur skorað 21 mark í aðeins 35 landsleikjum. Fram til þessa á leiktíðinni hefur Milan skorað tíu mörk í 18 leikjum. Þær tölur lofa sannarlega góðu. Kannski er nú komið að því að Milan fer að standa undir viðurnefninu, Maradona Ostravíu, sem hann fékk snemma á ferli sínum. Stuðningsmenn Liverpool geta að minnsta kosti gengið að því vísu að Milan Baros mun gera sitt besta fyrir liðið sitt. Það gerir hann alltaf.

TIL BAKA