Liverpool – Aston Villa í janúar 2004

Komið þið sæl kæru Liverpool-félagar. Okkur langar að deila með ykkur þeirri stórkostlegu upplifun er við heimsóttum Anfield Road í fyrsta, en ábyggilega ekki síðasta skipti á lífsleiðinni. Fyrir áramót kom það í ljós að við vorum á leið í þessa langþráðu ferð, 4 systkini saman. Liverpool-klúbburinn á Íslandi gat útvegað miða á ákveðna leiki, og í ljósi nokkuð brösótts gengis undanfarin misseri varð leikur gegn Aston Villa fyrir valinu, þar sem reynt var að stíla inn á að upplifa sigurleik í þessari fyrstu heimsókn á Anfield. Það er nægur tími síðar til að taka meiri áhættu í þessum efnum, og leika gegn hærra skrifuðum andstæðingum.

Lagt var af stað frá Keflavík að morgni Fimmtudags. Við hlustuðum á þjóðsönginn, You´ll never walk alone á leiðinni suðureftir, og eftir að hafa verið stöðvuð af laganna vörðum fyrir að aka gegn einstefnu við flugstöð Leifs Eiríkssonar, þónokkuð langa biðröð til að tékka okkur inn, samloku í kaffiteríunni og dágott labb að flughliði lögðum við af stað, og lentum í London um 3 tímum síðar. Sú borg olli okkur nokkrum vonbrigðum, og fékk maður eiginlega ekki á tilfinninguna þar að maður væri staddur á Englandi. Þarna ægir saman öllum þjóðflokkum og þjóðernum, gríðarlegur fjöldi af túristum, og í ofanálag náði verðlagið meira að segja á tíðum að hneyksla undirritaða Íslendinga, sem teljum okkur þó nokkuð vön að láta okra á okkur heima á Fróni.

Við fórum svo með lest til Liverpool á Föstudagsmorgni, og fiðringurinn í maganum óx eftir því sem við nálguðumst Liverpool-borg. Þegar þangað var komið dauðsáum við eftir að hafa ákveðið að eyða meirihluta helgarinnar í London, þar sem Liverpool heillaði okkur mun meira, falleg borg með vinalegu andrúmslofti. Fórum og versluðum okkur treyjur ofl. og skoðuðum okkur um á Albert dock og reyndum eftir megni að vera eins túristaleg og við gátum, með myndavélarnar á lofti og risastórt kort sem við þurftum að skoða á öðruhvoru götuhorni til að fullvissa okkur um að við værum á réttri leið.

Loks rann upp stóri dagurinn. Eftir að við höfðum klipið okkur nokkur hundruð sinnum, rétt til þess að fullvissa okkur í síðasta sinn um að við værum raunverulega stödd í Liverpool og á leiðinni á Anfield, en ekki í draumi, klæddum við okkur í rautt og hvítt og röltum niður í miðbæ. Þar voru allir komnir í gírinn, byrjað að selja leikskrár, trefla, húfur, boli og fleiri lífsnauðsynlegan varning merktum Liverpool. Keyptum okkur m.a. risastórann Liverpool-fána á 10 pund og röltum með hann um Viktoríustræti og drukkum í okkur stemminguna.

Við vorum komin fyrir utan Anfield á Hádegi. Ákváðum í sakleysi okkar að líta inn í “The official Liverpool store”, og kostaði sú ákvörðun okkur tæp 400 pund. Þeim var þó eytt í þeirri góðu trú að Houllier nýti þá skynsamlega. Við höfum reyndar ákveðið að láta okkur ekki bregða ef það reynist vera falsvon. Eftir að hafa smellt af mynd af okkur fyrir framan styttuna af Bill Shankley rákum við nefin inn á the Park, þar sem við hittum Kristmann sem var með miðana okkar. Þar voru menn byrjaðir að hita upp (og væta) raddböndin fyrir leikinn. Og ef við höfum verið kát fyrir með það að vera á leiðinni á Anfield, veit ég ekki hvaða lýsingarorð á að nota þegar Kristmann tjáði okkur að við hefðum fengið miða í Kop-stúkuna.

Við vorum mætt inn á leikvanginn glæsilega góðum klukkutíma fyrir leik og nú fékk myndavélin að finna fyrir því. Nánast hver einasti fermetri var festur á filmu. Hetjurnar birtust ein af annari til að hita upp, og tíminn fram að leik leið á örskotsstundu að manni fannst, og fyrr en varði voru rúmlega 40.000 manns byrjuð að syngja You´ll never walk alone. Það var ólýsanleg stund, og gott ef við vorum ekki öll komin með krullur þegar þeim söng lauk, slík var gæsahúðin sem maður fékk. Síðan hófst leikurinn, og eru nokkur atriði sem standa uppúr í minningunni, fyrir utan sigurmarkið, m.a. snilldarmarkvarsla Jones snemma í leiknum og töfrabrögð Diouf í þeim síðari. Riise átti dapran dag óg fékk nokkrar athugasemdir frá áhorfendum, sem og Kewell sem fór illa með nokkur góð skotfæri. Held að í tveimur tilfella hafi hann verið nær því að skora á Goodison Park en Anfield. Hjartað sló nokkuð hratt síðustu mínúturnar, enda forystan lítil og Villa-menn voru baráttuglaðir, en vörnin stóð allar tilraunir þeirra af sér. 1-0 sigur vannst, hefði getað verið stærri, en látum það liggja á milli hluta.

Við héldum brosandi út af vellinum, og hittum m.a. Pete Sampara. Hann stillti sér upp í myndatöku með yngsta ferðalangnum, áður en hann hélt á The Park til að fagna sigrinum, ásamt fleiri stuðningsmönnum. Okkar beið hinsvegar það verkefni að komast til London. Tók okkur um 10 mín að finna lausan leigubíl, og skyndilega hafði verðið þrefaldast frá því að samskonar bíll ók okkur á Anfield fyrr um daginn. Við létum það ekki á okkur fá, enda gilti þarna lögmálið um framboð og eftirspurn. Náðum í farangurinn okkur upp á hótel og drifum okkur á lestarstöðina. Eitthvað höfum við misskilið vandaðar leiðbeiningar þess sem leiðbeindi okkur hvaða lest við áttum að taka, og enduðum á því að vera 7 tíma á leiðinni til London, eftir að hafa ferðast með 2 lestum og einni rútu. Rúmlega helmingi lengur en þegar við fórum til Liverpool daginn áður, en við tókum því með jafnaðargeði. Það hefði enda þurft stórkostlegar náttúruhamfarir til að ná okkur niður úr þeirri sæluvímu sem við vorum í.

Sunnudeginum eyddum við svo m.a. í að labba um hina endalausu Oxford-street verslunargötu, og skoðuðum einnig Madame Tussaud´s vaxmyndasafnið. Mestallan daginn var maður þó utan við sig þar sem maður var að endurupplifa leik gærdagsins í huganum. Héldum síðan heim til Íslands á Mánudeginum, og föðurlandið tók á móti okkur fagnandi með -10° frosti og roki. Leiddum hugann að því hvort við gætum með nokkru móti smyglað okkur í vél sem var verið kalla út í og var á leið til Orlando, en datt engin auðveld leið í hug og renndum því upp úlpunum, settum á okkur Liverpool-treflana og ókum heim, ógleymanleg ferð að baki.

Það er ekki auðvelt að lýsa með orðum hversu frábær upplifun það er að fara á Anfield. Sennilega ekki hægt. Við hvetjum alla, sem ekki hafa þegar látið af því verða, til að drífa sig í að láta drauminn rætast. Þið verðið ekki söm á eftir. Þökkum Liverpool-klúbbnum á Íslandi kærlega fyrir aðstoðina og hlökkum til að fara aftur.

Elvar Skúli Daníel Aron
Lilja Björg Ingibjörg Karen

TIL BAKA